
Nokkrir molar
Steinbúinn
Hátt á bergi Búi stendur,
býður sína traustu mund;
horfir yfir heiðar lendur
hár og þögull alla stund
Búinn barstu úr bergi hörðu,
blóði vana kempan treg,
minnir helst á heiðar vörðu
hér við Barðastrandarveg.
Stattu lengi heill á húfi,
hetjan prúð, í fjallasal
þó að váleg veður rjúfi
varman frið um strönd og dal.
Ort 1947 af Kristleifi Jónssyni .
Vatnsenda-Rósa orti þessar vísur.
Auga mitt og augað þitt
og þá fögru steina,
mitt er þitt og þitt er mitt,
þú veist hvað ég meina.
Sagt er að upphaflega hafi þessi visa verið þannig
Augað mitt er eins og þitt
með ofur litla steina
mitt er þitt og þitt er mitt,
þú veist hvað ég meina
Þó að kali heitur hver,
hylji dali jökull ber,
steinar tali og allt hvað er,
aldrei skal ég gleyma þér.
( VATNSENDA-RÓSA )