Gámaþjónusta Vestfjarða

Málsháttur vikunnar

 

 1. Jafnir baggar fara best.
  Best er að jafnvægi sé í öllu (milli góðs og ills) í lífinu.
   
 2. Djúp vötn hafa minnstan gný.
  Mesta viskan lætur minnst yfir sér.
   
 3. Sjálfs er höndin hollust.
  Betra er að treysta á sjálfan sig en aðra.
   
 4.  Af kvaki best má kenna fugla.
  Hægt er að þekkja menn af því hvernig þeir tala.
   
 5. Fátt veit sá, er sefur.
  Hlutirnir fara gjarna fram hjá þeim sem taka illa eftir
   
 6. Gott er að eiga hauk í horni.
  Gott er að eiga góða að
   
 7. Fellur hver, þó frækinn sé.
  Jafnvel þeir merkustu deyja.
   
 8. Tvisvar verður sá feginn, sem á steininn sest.
  Ferðalúnum þykir gott að setjast á stein í vegkanti, en jafngott að standa á fætur eftir litla hríð,því steinninn er harður.
   
 9. Aldei skal gráta gengna stund.
  Því að hún kemur aldrei aftur, henni verður aldei breytt. Hún verður einungis endurlifuð í huganum. eins og Jóhann Sigurjónsson orti um í Bikarnum:

  Gleði,sem löngu er liðin,
  lifnar í sálu minni,
  sorg sem var gleymd og grafin,
  grætur í annað sinn.
   
 10. Ratar rógur þó rökkvið sé.
  Rógur fer ekki alfaraleiðir, heldur sína eigin vegi sem eru órannsakanlegir og sjaldnast þola birtu. Enginn vill viðurkenna að vera rógberi, samt flýgur kvitturinn hraðar en nokkurn órar.
   
 11. Enginn eignast krónu nema hann hirði eyrinn.
  Aldrei nær sá heilum eyri er hálfan fyrirlítur.
   
 12. Gott dæmi er á við góða ræðu.
  Gott fordæmi, góð hegðun, sé meira virði en fögur orð, því að reynsla hefur oft leitt í ljós, að siðapostular fara sjaldnast sjálfir þann veg sem þeir vísa.
   
 13. Nú falla öll vötn til Dýrafjarðar.
  Sagt er þegar mönnum þykir of seint að skipta um skoðun eða hætta við hafið verk; þeir ákveða að treysta á guð og lukkuna og ganga þann veg á enda sem framundan er þó að hann virðist vera býsna torfarinn, ef ekki ófær.
   
 14. Allt er vænt sem vel er grænt.
  Græni liturinn er tákn um gróskuna sem réð úrslitum um afkomu manna. Bændur áttu allt sitt undir gróðri jarðar.
   
 15. Það finnst í hálkunni sem falið er í snjónum.
  Um síðir kemur allt í ljós þótt vel hafi verið falið
   
 16. Bundinn er sá er barnsins gætir.
  það eru orða sönnun. Börn þarfnast mestrar ummönnunar þegar þau eru í hvítavoðum,nýfædd.
   
 17. Þú ert strá, en stórt er drottins vald.
  Allt líf manna var í hendi æðri máttarvalda. Skál hafa ort þessa hugsun á ýmsa vegu. Lokaerindi Hafíssins eftir Mattías Jochumsson hljóðar svo.

  Veikur maður, hræðstu eigi,hlýddu
  hreyk þér eigi, þoldu,stríddu.
  Þú ert strá,en stórt er drottins vald.
  Hel og fár þér finnst á þínum vegi;
  fávís maður,vittu,svo er eigi,
  haltu fast í Herrans klæðafald!
  Lát svo geysa lögmál fjörs og nauða,
  lífið hvorki skilur þú né hel:
  Trú þú:-upp úr djúpi dauða
  Drottins rennur fagra hvel.
   
 18. Enginn er spámaður í sínu föðurlandi.
  Í Lúkasar guðspjalli er frá því greint er Kristur gekk í samkunduhúsið í Nasaret. Hann predikaði þar og sagði þá meðal annars; ,,Sannalega segi ég yður, enginn er spámaður í sínu föðurlandi
   
 19. Ekki eru allir vinir sem í eyrun hlæja.
  Vini skal hver og einn sannreyna í gerðum en ekki orðum.
   
 20. Allir vilja elli bíða en enginn hennar meinsemd líða.
  Allir vilja lifa sem lengst,en ellinni fylgja meinsemdir af ýmsum toga
   
 21. Það tré er betra sem bognar en hitt sem brestur.
  Vísað til þeirra þrautseigju, sem menn verða að búa yfir í harðbýlu landi og þurfa sífellt að laga sig að ómjúkum aðstæðum
   
 22. Illt er við hamingjuna að etja.
  Hamingja var eitt þeirra orða, sem að fornu voru notuð um gott hlutskipti í lífinu, góð örlög. Þeir sem sífellt eltast við hamingjuna finna hana sjaldnast, því hún er skrýtin skepna.
   
 23. Sannleikurinn er sagnafár en lygin langorð.
  Sögusmettur hafa meira yndi af því að útbreiða lygi en að halda sannleikanum á lofti.
   
 24. Svo flýgur hver fugl sem hann er fjaðraður
  í lífinu farnast mönnum í samræmi við eðliskosti sína og það uppeldi sem þeir hljóta.
   
 25. Oft nýtur hundur herra síns
  Þegar þeir komu á aðra bæi, var stundum gaukað einhverju að rakkanum.
   
 26. Þjóð veit ef þrír vita
  Svo sögðu menn til forna og segja enn. Það sem skal fara leynt skal ekki segja mörgum.
   
 27. Grípa skal gæs meðan gefst.
  Það var síðsumars þegar þær felldur flugfjaðrir og voru þá auðveiddar.
   
 28. Guð borgar fyrir hrafninn
  Fólk sagði það borgaði sig að gefa krumma, því þá hlotnaðist mönnum happ í staðinn, og eru sögur til um það
   
 29. Seint flýgur krummi á kvöldin.
  Því að stundum dugir ekki dagurinn til að afla ætis.
   
 30. Fæddu mig í ár, ég fæði þig að ári.
  Að fæða merkir hér að gefa einhverjum að borða. Sá sem er ungur í dag verður gamall á morgun. Foreldrar ólu önn fyrir börnum sínum þangað til þau gátu sjálf gifst og farið að búa, settust síðan í hornið hjá þeim eftir að hafa látið jörðina í hendur þeirra.
   
 31. Krummi verður ei hvítur þó hann baði sig.
  Menn þurrka ekki út fortíðina þótt þeir breyti háttum sínum.
   
 32. Allir eru bændur til jóla
  Mönnum var misjafnt lagin sú list að búa vel. Það þurfti elju og natni til þess að komast vel af. Yfirleitt var gott veðu til jóla og hægt að halda féi til beita. Núna eru menn bændur til jóla í þeim skilningi, að meðan ausið verður af allsnægtum gengur allt vel,en síðan reynir á.
   
 33. Allir eru ógiftir í verinu.
  Menn fóru í ver þegar þeir héldu til sjóróðra og bjuggu í sjóbúð. Þar var að mestu einlitur söfnuður ókvæntra karla,en matselja var þó í mörgum búðum. Þetta voru mest ungir menn,og því að mestu sannmæli, að allir eru ógiftir í verinu.
   
 34. Allir látast ókvæntir í verinu.
  Kvæntum mönnum líðst ekki að þrífa til kvenna utan hjónasængur,og þeir sem girntust griðkonur í verinu létust því vera ókvæntir. Enn eru menn við sama heygarðshornið þegar þeir villa á sér heimildir.
   
 35. Bítur á beittan öngul.
  Menn sögðu æskilegt vera að hvessa agnhald á öngli svo að fiskaðist vel. Nú geta menn sagt svo um málstað sinn þegar þeir skerpa og einfalda svo rök sín, að allir skilja eða trúa.
   
 36. Þegjandi kemur þorskur í ála
  Þorskur var og er uppistaða í sjávarfangi landsmanna. Þorskurinn kemur þegjandi á miðin. Eins er farið bestu mönnum. Þeir gaspra ekki, þeir ganga hljóðir til starfa og vinna til nytsemdar.
   
 37. Allt er fertugum fært en sextugum vært.
  Frá fertugu fer að halla niður á við hjá æði mörgum,en ekki öllum. Allt sem hinn fertugi getur leyst af hendi gerir hinn sextugi léttilega, rólega,með værð.
   
 38. Fætur hljóta búk að bera en bolur höfuð.
  Ef litið er á þetta sem líkingu,þá undirstrikar hún, að bóndi þurfi að byggja bú sitt eðlilega upp til þess að það gæti dafnað. Hann sjálfur er höfuðið.
   
 39. Það þarf sterk bein til að þola góða daga.
  Það höfðu menn fyrir satt, því að reynslan sýndi, að hóglífi og sællífi dró úr þreki og vinnugleði. Þetta segja menn gjarnan nú þegar einhver hefur farið flatt,en átt alla möguleika,til að standa sig vel.
   
 40. Fer orð og flýgur.
  það sem geyma skal í huga sér á ekki að ræða,því að orð berast hratt manna á milli. Töluð orð verða ekki aftur tekin fremur en annað sem gert er.
   
 41. Illt er að kljást við kollóttan
  Það getur reynst örðugt að ná taki á kollóttum hrút.
   
 42. Ekki skrifar Lúkas svo.
  Lúkas var einn af guðspjallamönnunum, og ýmislegt eftir honum haft. Þó er fleira, sem ekki stendur í guðspjalli Lúkarar,einkum af því tagi sem ekki skal bera sér í munn. Ekki líkar öllum vel við guðsorðið: Ekki er gaman að guðspjöllunum, sagði kerling, enginn er í þeim bardaginn. Þetta er enn haft á orði, þegar einhverjum þykir dauflegt.
   
 43. Margar eru götur til guðs.
  Er býsna margræður málsháttur. Hann má skilja sem svo, að ýmislegt það sem verður mönnum að fjörtjóni leiðir þá til guðs. Einngi geta orðin þýtt, að menn geti með margvíslegu móti verið guði þóknanlegir og náð til hans í bænum sínum.
   
 44. Oft ber blaðfátt tré bestan ávöxtinn.
  Sífellt eru málshættir að minna menn á, að ekki er allt fengið með útliti eða ríkidæmi.
   
 45. Lítil hjartnæm jólasaga.
  Þessi saga gerðist fyrir mörgum árum. Maður nokkur refsaði 3ja ára dóttur sinni fyrir að eyða heilli rúllu af gylltum pappír, þegar barnið reyndi að skreyta lítið box til að setja undir jólatréð. Engu að síður færði litla stúlkan föður sínum boxið í jólagjöf. Þetta er handa þér pabbi. Við þetta skammaðist faðir stúlkunnar sín fyrir viðbrögð sín daginn áður. En reiði hans gaus upp aftur þegar hann áttaði sig á því að boxið var tómt. Hann kallaði á dóttur sína, veistu ekki að þegar þú gefur einhverjum gjöf, þá á eitthvað að vera í henni? Ó pabbi boxið er ekki tómt. Ég blés fullt af kossum í það. Bara fyrir þig pabbi. Faðirinn varð miður sín. Hann tók utan um litlu stúlkuna sína og bað hana að fyrirgefa sér. Mörgum árum seinna þegar faðir stúlkunnar lést, og hún fór í gegnum eigur hans fann hún gyllta boxið við rúmstokkinn hans, þar hafði hann haft það alla tíð, þegar honum leið ekki vel gat hann tekið upp ímyndaðan koss og minnst allrar ástarinnar sem barnið hans hafði gefið honum og sett í boxið.
   
 46. Gleðilegt nýtt ár
  Gleðilegt nýtt ár.
   
 47. Að vera háll sem áll
  Að vera slyngur, að eiga auðvelt með að bjarga sér út úr vandræðum, gefa ekki höggstað á sér.
   
 48. Að þreyja þorrann og góuna.
  Að hafa úthald og þolinmæði.
   
 49. Vera upp á austan
  Vera byrstur. Þetta orðtak er sjálfsagt til orðið þar sem austanátt veldur usla. Þar er náttúran byrst þegar hún blæs af austri.
   
 50. Sækja í sig veðrið
  Herða sig upp til að gera eitthvað, taka á sig rögg; taka framförum.
   
 51. Tening(un)um er kastað
  Málið er útkljáð;ákvörðun hefur verið tekin. Sesar sagði þessi orð þegar hann hélt yfir Rúbíkófljótið til að leggja undir sig Ítalíu.
   
 52. Bera kápuna á báðum öxlum
  Vera óáreiðanlegur,vera tækifærissinni. Þegar Sæmundur fróði lauk námi frá Svartaskóla í París tók hann að sér að ganga síðastur sveina út,en að jafnaði tók kölski þann svein til sín. Sæmundur bar kápu sína á báðum öxlum, en klæddi sig ekki í ermar þegar hann gekk út. Djöfullinn hreppti kápuna,en Sæmundur slapp.
   
 53. Sigla góðan byr.
  Njóta hylli eða vinsældar. Frummerkingin er að fá hagstæðan vind svo menn geti siglt þangað sem þeir ætla sér.
   
 54. Í guðsbænum
  Fyrir alla muni,endilega. Í guðsbænum truflið þið hana ömmu ykkar ekki meðan hún er að hlusta á Passíusálmana.
   
 55. Að komast vel í tána.
  Verða efnaður.
   
 56. Snúa hnakka við einhverju
  Láta fyrirlitningu í ljós. Menn geta látið í ljós fyrirlitningu sína með því að snúa baki við einhverju.
   
 57. Fara í geitarhús að leita ullar
  Leita einhvers þar sem öruggt er að ekkert finnist. Ull vex ekki á geitum,þess vegna finna menn ekki það sem þeir leita að þegar þeir leita ullar í geitarhúsi. það er nú að fara í geitarhús að leita ullar að heimsækja hann Illuga til að fræðast um síldarárin á Siglufirði.
   
 58. Blása að kolum.
  Æsa einhvern upp,róa undir. Í smiðjum notuðu menn viðarkol til forna,enda eyddust skógar ört. Menn höfðu sérstakan útbúnað,físibelg,til þess að blása í glóðina. Þá æstist eldurinn,og unnt var að hita járnið.
   
 59. Það er meira blóð í kúnni.
  Máli er ekki lokið,það má græða meira á einhverju. Hér er höfð hliðsjón af slátrun kúa. Þær voru skornar,og menn hirtu blóðið til að búa til slátur og annað góðmeti. Allir héldu að rifrildinu væri lokið,en það reyndist vera meira blóð í kúnni því Sigga fór þá að stríða Hrund með Nonna.
   
 60. Það er uppi á einhverjum bitar og jaxlar
  Einhver getur svarað vel fyrir sig, bitið frá sér. Biti getur þýtt augntönn, einkum í hestum. Það voru uppi bitar og jaxlar á honum Glúmi í gær þegar að honum var ráðist í þinginu.
   
 61. það syngur í tálknum á einhverjum
  það er þokkalegt að heyra til einhvers eða hitt þó heldur! Þetta er öfugmæli því lítt eða ekki heyrist í tálknum fiska. Orðtakið er því notað um orðræðu þar sem mikið er fullyrt og hefði jafnvel betur verið ósagt. Það söng nú víst eitthvað í tálknunum á henni Ragnheiði þegar hún tók til máls,en menn létu það sem vind um eyru þjóta.
   
 62. Binda ekki bagga sína sömu hnútum og aðrir
  Fara sínar eigin leiðir,vera sérvitur. Benóný skákmaður batt ekki bagga sína sömu hnútum og aðrir,enda kom hann andstæðingum sínum sífellt á óvart með óvæntum leikjum, ekki síst í upphafi tafls.
   
 63. Pissa í bagga einhvers
  Gera einhverjum greiða. Fyrr á öldum var unnið úr sem næst allri ull heima, en á síðari tímum fluttu bændur hluta af ull sinni í böggum til kaupstaðar og seldu. Þeir fengu greitt eftir gæðum ullar og þyngd. Óprúttnir menn stráðu stundum sandi í ullina sína eða bleittu hana ögn til þess að þyngja hana. Ég verð einhvern tíman að pissa í baggana þína til að launa þér greiðviknina.
   
 64. Nú kastar tólfunum
  Nú keyrir úr hófi. Í spilum með tveimur tenginum er jafnan best að fá upp sex á þeim báðum, það eru samtals tólf. Menn köstuðu tólfunum þegar svo tókst til. Prófin voru svínslega þung, en þó kastaði tólfunum í starfræði því að þar féll hálfur bekkurinn.
   
 65. Skvetta úr skinnsokknum.
  Skinnsokkur er skrautlegt líkingarorð um typpi og er líkingin auðskilin. Mikið er nú gott að skvetta úr skinnsokknum þegar maður er búinn að vera í spreng.
   
 66. Búa í bosið.
  Bos þýðir bæli,híbýli í þessu orðtaki; getur jafnvel þýtt vagga. Fríða og Sverrir fóru á fornsölurnar til þess að búa í bosið fyrir sig.
   
 67. Vekja hrafnana.
  Fara snemma á fætur. Hrafnar byrja snemma að krunka á morgnana og að leita sér matar. Sá sem vekur hrafna að morgni dags fer fjarska snemma á fætur. Agla kemur miklu í verk, enda vekur hún hrafnana morgun hvern.
   
 68. Skíta digurt
  Vera efnaður eða grobbinn. Þetta orðtak er oftast notað með neitun,ekki. Eysteinn er ekki vanur að skíta digurt, og þess vegna urðu flestir hissa þegar hann keypti dýrustu hlutina á uppboðinu.
   
 69. Hafa asklok fyrir himin
  Vera þröngsýnn og/eða hugsjónasnauður;miða allt við líkamsþarfir. Margir vilja hætta að kenna sögu í skólum, en Maggrét er því algjörlega ósammála og telur að þeir menn hafi askalok fyrir himin.
   
 70. Róa fyrir seil
  Eiga við erfiðleika að etja. Seil er band eða kaðall. Stundum veiddu menn svo vel að þeir komu ekki öllum fiskinum um borð í bátinn. Þá voru fiskarnir þræddir upp á band í kippur og margar kippur bundnar saman í eina festi. Síðan var báturinn látinn draga seilina sem var erfitt. Íslenskir skíðagöngumenn reru fyrir seil í 30 km göngu á Ólimpíuleikunum en Norðmenn röðuðu sér í þrjú efstu sætin.
   
 71. Flétta reipi
  Reika í spori(vegna drykkju) Reipi voru fléttuð úr hrosshári, en þá er hver þáttur sveigður yfir um annan. Drukkinn maður er reikull í spori, stefna hans er í sveigum eins og þáttur í reipi. Af slíkum fótaburðum er líkingin dregin. Þú hefur fengið þér of mikið neðan í því. Þú ert farinn að flétta reipi!
   
 72. Láta drífa um stafn
  Láta skeika að sköpum,taka áhættu. Mörgum finnst að skíðamenn láti drífa um stafn þegar þeir bruna á 120 km hraða niður svellaðar brekkurnar í Ölpunum.
   
 73. Verða að gjalti
  Fara hjá sér; verða skelfingu lostinn. Margir strákar verða að gjalti þegar sætar stelpur tala við þá.
   
 74. Þar fór góður biti í hundskjaft
  Þar fór verr en skyldi,góður hlutur endaði á verri stað en hann átti skilið. Maður/kona eignuðust verri maka(að mati annara )en efni stóðu til. Hundar hafa fylgt Íslendingum frá upphafi byggðar. Hundum var skamtaður matur sem fólki þótti minnst varið í,ef hundar fengu góðan kjötbita. Þá sögðu menn að farið hefði góður biti í hundskjaft. Ekki skil ég í henni Ásrúnu að taka saman við hann Friðmund, þann vandræðamann. Þar fór góður biti í hundskjaft.
   
 75. Ætla sér hagldirnar,en hinum töglin
  Sýna sérhlífni með því að ætla öðrum erfiðari verkin. Yfirleitt unnu tveir saman að heybandi og að jafnaði karl og kona. Það var léttara að vera með hagldirnar og því var það kvenmannsstarf. Þess vegna eru þeir menn sérhlífnir sem leggja til að þeir hafi hagldirnar, en einhver annar töglin. Okkur líkaði illa við verkstjórann, enda hefur hann löngum ætlað sjálfum sér hagldirnar en okkur hinum töglin.
   
 76. Berja í brestina
  Fegra eða afsaka galla. Frá fornu fari hefur ríkt ákveðin hefð í gull-og silfursmíði. Menn smíðuðu hringa,festar,víravirki á kvennfatnað og fleira af miklum hagleik. Stundum kom brestur í málminn,einkum á samskeytum. Óvandaðir smiðir létu duga að berja í brestina. Með því móti földu þeir smíðagalla. Sædís reyndi að berja í brestina, en um síðir varð hún að viðurkenna að skýrslan hennar væri fjarska ónákvæm.
   
 77. Fara á fjörurnar við einhvern
  Fara einhvers á leit;reyna við stelpu/strák. Mörgu skolar sjórinn á land, einkum í stórbrimi. Menn fóru á fjörur til þess að leita happafengs,rekaspýtu,fisks,jafnvel hvals. Þeir sem fara nú á fjörur eru að leita einhvers,einkum ástar. Það dylst engum að hann Ingimundur er að fara á fjörurnar við hana Láru.
   
 78. Deila um keisarans skegg.
  Deila um eitthvað fánýtt. Höfðu rómverskir keisarar skegg eða voru þeir skegglausir? Um þetta mun fólk hafa karpað, og síðan er það haft að orðtaki að menn deili um keisarans skegg þegar þeir þrasa um eitthvað nauðaómerkilegt. Mörgum finnst það deila um keisarans skegg þegar rifist er um hvort Jón Páll hafi verið sterkari en Magnús Ver.
   
 79. Vera sterkur á svellinu
  Vera fastur fyrir(einkum í siðferðisefnum) Oft þurftur vegfarendur að ganga á hálum ís í bókstaflegri merkingu. Þá kom sér vel að vera sterkur á svellinu. Sumir voru ekki fastir á svellinu og duttu sífellt. Lárus hefur tvisvar farið á Vog,enda er hann ekki sterkur á svellinu ef áfengi er annars vegar.
   
 80. Höggva í harðan skalla
  Fá engar undirtektir,mæta tómlæti. Kvenfélagið leitaði til bæjarstjórnar um styrk til þess að reisa hús yfir hannyrðasafnið,en þar var höggvið í harðan skalla.
   
 81. Lítil jólasaga
  Maður nokkur refsaði 3ja ára gamalli dóttur sinni fyrir það að eyða heilli rúllu af gylltum pappír. Ekki var mikið til af peningum og reiddist hann þegar barnið reyndi að skreyta lítið box til að setja undir jólatréð. Engu að síður færði litla stúlkan föður sínum boxið á jóladagsmorgun og sagði: "þetta er handa þér pabbi". Við þetta skammaðist faðir stúlkunnar sín fyrir viðbrögð sín daginn áður. En reiði hans gaus upp aftur þegar hann áttaði sig á því að boxið var tómt. Hann kallaði til dóttur sinnnar, "veistu ekki að þegar þú gefur einhverjum gjöf, þá á eitthvað að vera í henni?" Litla stúlkan leit upp til pabba síns með tárin í augunum og sagði: "Ó pabbi boxið er ekki tómt. Ég blés fullt af kossum í það. Bara fyrir þig pabbi." Faðirinn varð miður sín. Hann tók utan um litlu stúlkuna sína og bað hana að fyrirgefa sér. Það er sagt að mörgum árum seinna, þegar faðir stúlkunnar lést, og hún fór í gegnum eigur hans hafi hún fundið gyllta boxið frá því á jólunum forðum við rúmstokkinn hans, þar hafði hann haft það alla tíð; þegar honum leið ekki vel gat hann tekið upp ímyndaðan koss og minnst allrar ástarinnar sem barnið hans hafði gefið honum og sett í boxið. Í dag skaltu gefa þér augnablik og njóta stórrar handfylli af minningum. Og mundu að þær verma hjarta þitt og bráðna þar, en ekki í höndum þínum.
   
 82. Hvernig nýtum við tíma okkar best.
  Undanfarin ár hefur krafan á starfsmenn fyrirtækja um að koma meiru í verk,á styttri tíma og með minni tilkostnaði,orðið sífellt háværari. það sem dugði til á síðasta ári er langt frá því að vera nóg í dag. Við þurfum sífellt að leita leiða til að gera meira, nýta tímann betur og spara með einum eða öðrum hætti. Hvernig við nýtum tíma okkar er þar lykilatriði og getur haft úrslitaáhrif á árangur okkar. Gott skipulag og yfirsýn yfir verkefni okkar gefur okkur forskot.
   

 

© Gámaþjónusta Vestfjarða | Opnunartími mánudaga til föstudaga: 8:00 - 18:00 | Sími: 456 3710 | Fax: 456 5157 | Vefsmíði: Styx ehf.